Húbei-líkanið

Við upphaf veirufaraldursins á Íslandi miðuðust áætlanir stjórnvalda við að um væri að ræða viðráðanlegan inflúensufaraldur á pari við svínainflúensufaraldurinn 2009. Áætlað var að jafnvel þótt stjórnvöld gripu ekki til neinna aðgerða til að hefta faraldurinn yrðu dauðsföll í versta tilfelli aðeins 10 til 15. Þetta áhættumat kom ítrekað fram, síðast í Kveik 17. mars 2020, og byggðist á tölum frá Húbei í Kína. Húbei-líkanið grundvallaðist á þeirri kenningu sóttvarnalæknis að COVID-19 faraldurinn hafi gengið óhindraður um allt Húbei-hérað og þó ekki valdið nema um 3000 dauðsföllum í 58 milljón manna héraði. Aðrir, þar á meðal Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, töldu að Kínverjar hafi stöðvað faraldurinn í héraðinu þegar aðeins lítill hluti íbúa þess hafði smitast.

Sóttvarnalæknir virtist hverfa frá Húbei-líkaninu 19. mars 2020 með því að segja að „það var aldrei spá í raun í sjálfu sér“. Í skýrslu Imperial College frá 16. mars var gert ráð fyrir um 500.000 dauðsföllum á Bretlandi ef faraldurinn væri óheftur. Yfirfært á íslenska höfðatölu væru það um 2500 dauðsföll.

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur Almannavarna, 26. febrúar 2020:
„Við höfum verið að áætla svona gróft hvað gætum við búist við ef það versta sem gæti gerst hér með þennan faraldur – og ég vil ítreka það að faraldurinn – það eru 80% sem virðast fá væg einkenni – og ef við miðum við versta faraldurinn sem er að gerast í heiminum í dag og það er í Húbei-héraði þar sem greinilega hefur svona allt farið úr böndum  og Kínverjar hafa ekki ráðið vel við þetta þar að þá ef við bara yfirfærum þær tölur yfir á Ísland hráar – og þá erum við ekki að taka tillit til þess að við myndum gera neitt – við gerðum bara ekki neitt og fengjum þennan faraldur yfir okkur – þá gætum við búist við að sjá svona kannski um 300 tilfelli hér á Íslandi. Við gætum búist við að sjá kannski svona 20 gjörgæslutilfelli, rúmlega 20, 25. Og við gætum búist við kannski að sjá svona upp undir 10 dauðsföll. Það eru mörg spurningarmerki við þessa útreikninga og margir sem kannski eru ekki alveg sáttir við að þetta sé gert svona en ég held að þetta sé svona besta nálgunin á það versta sem gæti gerst sem við höfum.

Þannig að getur heilbrigðiskerfið á íslandi ráðið við þetta? Ég held að heilbrigðiskerfið geti ráðið við þetta. Við vorum með svipaðan faraldur í svínainflúensunni 2009. Þá voru rúmlega 20 einstaklingar sem þurftu að leggjast inn á gjörgæslu og það var mikið álag en það tókst. Og það er það sem viðbragðsáætlanir heilbrigðiskerfisins ganga út á núna, spítalanna, til dæmis Landspítalans og heilbrigðiskerfisins alls, heilsugæslunnar. Þannig að ég held að ef allt færi á versta veg og ekkert væri gert þá myndum við ráða við það. En bendi aftur á það að þessar áætlanir sem við erum að nota, erum að biðja almenning um að fara eftir, alla um að fara eftir – þær munu alveg örugglega draga úr þessu allverulega.“ Heimild

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 11. mars:
„Það er þannig að svona faraldur eins og af þessari sýkingu ef ekkert væri að gert þá mundi hann ganga kannski yfir á svona 2–3 mánuðum. Það gerðist í Kína.“ Heimild (16:50 í upptöku)

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 15. mars:
„Það hefur talsvert borið á því að menn hafa verið að reikna út hugsanlegar alvarlegar afleiðingar af þessari veiru og fengið mjög háar tölur sem að orkar mjög tvímælis að nota þá aðferðafræði. Ef að við miðum við Húbei-hérað í Kína þar sem að faraldurinn var hvað verstur og mestur þá var það þannig að 0,1% af íbúum Húbei-héraðs greindust með þessa veirusýkingu og það var af þeim sem að alvarlegar afleiðingar greindust hjá svona tæplega 10%. Ef við yfirfærum þessar tölur yfir á Ísland sem að er í sjálfu sér hægt að setja spurningarmerki við en það eru svona einu tölurnar sem við höfum, þá  mundum við kannski geta búist við því að sjá hér á Íslandi í svipuðum faraldri og þar var um 30 einstaklinga á gjörgæslu. Þannig að ég vil bara að þetta komi skýrt fram því að menn hafa verið að reikna mjög undarlega út að ef að 25% af þjóðinni  muni fá þessa veiru þá hafa menn verið að reikna síðan út að dánartalan gæti verið 2-4% og fá mjög háar tölur, mörg þúsund, en þetta er ekki rétt aðferðafræði og ég held það sé rétt að halda því til haga þannig að menn fari ekki að skapa hér óþarfa-áhyggjur og óþarfa-tortryggni út í það sem verið er að gera.“ (Heimild 2:48 í upptöku)

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 15. mars:
„Ef við skoðum töluna til dæmis frá Húbei, ég held það sé ágætt að miða við Húbei. Samkvæmt þeirra tölum sem greindust með sýkinguna var 0,1% af þjóðinni þar eða þeim 58 milljónum sem búa í Húbei voru greindir með þessu sýkingu. Það voru örugglega miklu miklu fleiri sem raunverulega sýktust en ekki voru greindir.“ (Heimild 32:05)

Þórólfur Guðnason, Kveikur, þriðjudaginn 17. mars 2020:
„Ef við tökum bara hversu margir dóu af þessari veiru og miðum við íbúafjölda sem þar er sem eru 58 milljónir þá gætum við búist við því að sjá hér á Íslandi kannski kringum 15 dauðsföll, kannski helmingi fleiri sem væru alvarlega veikir og þyrftu að fara inn á gjörgæslu. Þetta er í mínum huga svona svartasta spáin sem maður gæti séð ef við gerðum ekki neitt.“ Heimild (8:35 í upptökunni)

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 19. mars 2020:
„Það hafa verið umræður um það víðsvegar að ég hafi sagt einhvern tímann að 300 einstaklingar myndu sýkjast hér. Mig langar bara aðeins að hnykkja á því og leiðrétta það að ég sagði jú að miðað við faraldurinn í Húbei og ef við yfirfærðum þær tölur yfir á Ísland þá gætum við búist við að sjá hér 300–400 einstaklinga. Þannig að það var spáin. Hins vegar sagði ég einnig á þeim tíma að við gætum séð kannski um 30 einstaklinga á gjörgæslu þannig að samkvæmt okkar stærðfræðilíkani sem við erum að vinna með þá virðist sú spá rætast. En um fjölda einstaklinga þá höfum við náttúrlega sagt margoft, sem eru smitaðir, þá fer það eftir því hvað maður leitar mikið, hvað maður prófar mikið hvað maður fær stórar tölur sem smit. Þannig að ég vildi bara leiðrétta það að það var aldrei spá í raun í sjálfu sér að hér mundi einungis sýkjast 400 einstaklingar heldur voru þetta yfirfærðar tölur frá Húbei yfir á Ísland.“

%d bloggers like this: