Hjarðónæmi

Hjarðónæmi

Þar sem stjórnvöld töldu að COVID-19 faraldurinn væri álíka alvarlegur og svínainflúensufaraldurinn 2009 (sjá um Húbei-líkanið) var stefnan ekki sett á að stöðva faraldurinn strax með yfirgripsmiklum aðgerðum. Þess í stað miðuðust aðgerðir stjórnvalda við að hlífa viðkvæmum hópum og dreifa veirunni um samfélagið á hæfilegum hraða til að skapa hjarðónæmi en til þess þyrfti stór hluti þjóðarinnar að smitast (um 60% landsmanna miðað við útbreiðslustuðulinn 2,5). Beðið var með samkomubann til að stöðva ekki veiruna áður en hún næði sér á strik því að þá væri hætta á að hjarðónæmi myndi ekki nást og faraldurinn koma upp aftur þegar aðgerðum væri aflétt.

Mánudaginn 16. mars var nokkuð dregið í land með hjarðónæmisstefnu með því að segja að „ákveðinn misskilningur“ hefði skapast. Um svipað leyti var horfið frá hjarðónæmisstefnu í Bretlandi sem þar hafði sætt mikilli gagnrýni eftir að Boris Johnson setti hana fram á blaðamannafundi 12. mars.

Eftir 16. mars var ekki lengur jafn-ljóst hver stefna íslenskra yfirvalda væri. Í aðra röndina virtist stefnt að fáum smitum en í hina röndina var enn talað um að það væri varasamt að bæla faraldurinn harkalega niður því að þá muni ekki skapast ónæmi. Á blaðamannafundi 25. mars sagði Þórólfur að „við fáum hjarðónæmi“. Reiknilíkanið sem unnið var eftir á þessum tíma gerði hins vegar ráð fyrir að minna en 1% þjóðarinnar myndu greinast með smit.

Í Morgunblaðinu 26. mars bentu yfirvöld sóttvarna á að með aðgerðum yfirvalda lækki útbreiðslustuðull veirunnar meðan þær eru í gildi og þar með það hlutfall þjóðarinnar sem þarf að smitast til að skapa hjarðónæmi. Þetta er reiknað með einfaldri formúlu. En jafnvel þótt útbreiðslustuðullinn sé lækkaður alveg niður í 1,3 (eins og lagt var til í norskri skýrslu í áætlun um að hægja á faraldrinum) þyrftu samt 23% þjóðarinnar að smitast til að skapa hjarðónæmi eða yfir 80.000 manns. Í spálíkani því sem sóttvarnalæknir vann eftir var gert ráð fyrir að aðeins um 2000 manns smitist.

Til að það fari saman að fá smit greinist en samt verði til nógu mikið ónæmi í samfélaginu til að eitthvað muni um það verður að gera ráð fyrir að mjög margir verði fyrir veirunni og myndi mótefni við henni án þess að greinast nokkurn tíma með smit.

Þórólfur Guðnason, Kastljós, 11. mars 2020:
Fréttamaður: „Þú hefur sagt að ef við gerum þetta of snemma þá muni blossa upp smit síðar þegar því verður aflétt, af hverju?“ Þórólfur: „Það er vegna þess að ef að við beitum mjög hörðum aðgerðum og stoppum og lokum öllu, að þá nær smitið sér í raun og veru ekki á strik og það verður kannski mjög lítið en þegar við afléttum þessu banni, hvenær sem það verður, að þá er mjög mikil hætta á því að við fáum topp í þessum sýkingum“ Heimild

Víðir Reynisson, 12. mars 2020, um samkomubann:
„Ef þú setur það of snemma og stoppar algjörlega hugsanlega útbreiðslu faraldursins þá höldum við því í hvað fjórar – átta vikur, eða hvað við þurfum að gera, og svo þegar við höldum að við séum bara orðin í góðum málum og tökum það af, þá fáum við einhverja toppa sem við ráðum ekki við.“ Heimild

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 15. mars:
„Við vitum að mjög stór hluti af þjóðinni mun fá þessa sýkingu. Við viljum bara að það sé hrausta fólkið sem fái þessa sýkingu. Við viljum halda veikinni frá viðkvæmum hópum. Vegna þess að við vitum að heilbrigt fólk, lang- langflest sem fær þessa sýkingu fær hana vægt. Þannig munum við fá þetta hjarðónæmi, þetta samfélagslega ónæmi, sem gerir okkur kleift að vernda þessa viðkvæmu. Ef að við myndum grípa til mjög harðra aðgerða, loka gjörsamlega allt af, þá myndum við eiga von á því að fá faraldurinn bara seinna, þegar við opnum aftur. Seinna í sumar eða í haust. Það er að segja ef þessi veira er ekki orðin útdauð í heiminum öllum, en það getur tekið tvö ár. Þannig að við viljum fá ákveðna sýkingu í samfélaginu, við viljum bara fá hana hægt og rólega, og við viljum þá að rétta fólkið fái þessa sýkingu, ekki viðkvæma fólkið.“ Heimild

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 15. mars:
„Þegar við erum að tala um að skapa hjarðónæmi – við getum hugsað þetta eins og nokkurs konar bólusetningu. Bólusetningin gengur út á þetta. Þegar við erum að bólusetja þá viljum við ná ákveðinni prósentu til þess að halda sýkingunni í burtu frá samfélaginu. Sama gildir um sýkingar almennt – við viljum ná ákveðnu hjarðónæmi svo að þeir sem að sýkjast nái ónæmi og geti ekki sýkst aftur. Og það eru engar haldbærar og öruggar upplýsingar um að fólk smitist aftur. Það eru einhver svona einstök dæmi en virðist ekki vera þannig alla vega í raun. Þannig að munum við ná hjarðónæmi með minni útbreiðslu? Það er alveg mögulegt en þetta er svona fræðilegi hlutinn af þessu og ég held að við þurfum að líta á það þannig að ef við ætlum að vera alveg örugg í samfélaginu að þessi sýking komi ekki aftan að okkur einhvern tíma seinna þá þarf ákveðinn hluti af samfélaginu að hafa fengið sýkinguna. Þannig að ég held við þurfum ekkert að vera með ákveðin vonbrigði ef einhver er að greinast.“ (Heimild 32:28 í upptökunni)

Þórólfur Guðnason, Silfrið, 15. mars 2020:
„Við verðum eiginlega að fá eitthvað smit í samfélagið, vegna þess að þetta er svona eins og bólusetning. Þannig að við getum reiknað það út að við þurfum kannski um 60% af þjóðinni til að smitast til þess að búa til ónæmi þannig að við fáum þetta svokallaða hjarðónæmi, þannig að veiran muni ekki þrífast áfram. Ef við værum mjög hörð og mundum ekki leyfa neina sýkingu í samfélaginu þá mundum fá bara þennan topp seinna. Þegar við færum að slaka á mundum við fá hann í sumar eða haust eða kannski á næsta ári.” Heimild (mínúta 24 í upptöku)

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 16. mars:
„Það er eitt annað sem mig langar til að minnast á og það er þetta svokallaða hjarðónæmi. Ég hef orðið var við það að á ýmsum miðlum hefur ákveðinn misskilningur verið í gangi um þetta hugtak, hjarðónæmi. En hjarðónæmi er þetta hugtak sem kemur úr bólusetningum sem segir í raun og veru til um það hvað þarf að bólusetja stóran hluta af þjóðinni til að skapa þannig ónæmi í samfélaginu að ef veira kemur inn þá muni hún ekki ná að þrífast og enginn faraldur verða. Þetta er svona hugmyndafræðin á bak við hjarðónæmi. Nú, það hefur verið talað um og það er hægt að reikna þetta hjarðónæmi út frá þessum útbreiðslustuðli sem hefur verið talað um þessa veiru og hann er í kringum 3 á þessari veiru. Og þannig að ef við hefðum bóluefni gegn þessari veiru þá gætum við sagt að við þyrftum að bólusetja um 60-70% af þjóðinni til að virkilega vernda þjóðina. Þetta þýðir ekki það að það sé eitthvert takmark hjá okkur að 60-70% af þjóðinni muni sýkjast af þessari veiru.“ Heimild

Morgunblaðið, 21. mars 2020, bls. 4
Þórólfur segir stjórnvöld ekki hafa talað um að leitast væri eftir hjarðónæmi. „Við höfum bara sagt að til að ná hjarðónæminu þurfi það að vera 60%. Það hefur aldrei verið stefnan að 60% af þjóðinni sýkist.“

Þórólfur Guðnason, Hlaðvarp Viljans, 21. mars 2020:
„Ef það verður nánast engin sýking í samfélaginu á þessum tímapunkti, þegar menn kannski grípa til mjög harðra aðgerða þannig að fræðilega séð smitist enginn, þá er mjög mikil hætta á því að skellurinn komi bara seinna.“ Heimild

Þórólfur Guðnason, blaðamannafundur 25. mars 2020:
„Það er algjörlega ljóst að smit sem verður í samfélaginu það mun skapa hjarðónæmi og við höfum alltaf sagt það að við getum ekki komið í veg fyrir smit. Það er hægt kannski með einhverjum mjög hörðum aðgerðum. Það mundi kosta mjög mikið en það mundi þýða það að við mundum fá faraldurinn aftur til okkar. Það er engin sérstök stefna hjá okkur að búa til einhverjar sýkingar úti í samfélaginu hjá einhverjum ákveðnum hópum, alls ekki. Við erum að reyna að hægja og minnka faraldurinn eins og mögulegt er og við erum að reyna að vernda þá sem eru viðkvæmir fyrir, loka þá sem mest af. Það er aðalmarkmiðið. Og á sama tíma vitum við að við fáum hjarðónæmi. Sem mun hjálpa okkur síðar meir. En það er ekki markmiðið í sjálfu sér.“ Heimild (23:35 í upptöku)

Þórólfur Guðnason, Alma Möller, Víðir Reynisson, Haraldur Briem, 26. mars:
“Takist að lækka Ro dregur umtalsvert úr hlutfalli þeirra sem þurfa að hafa ónæmi í samfélaginu til að faraldurinn stöðvist.” (Morgunblaðið, bls. 35)